Lagningu Vestmanaeyjastrengs 3 (VM3), nýs sæstrengs til Eyja lauk formlega 9. október 2013 þegar strengurinn var spennusettur við athöfn í Vestmannaeyjum. Hann er gerður fyrir 66 kV spennu en rekinn á 33 kV spennu til að byrja með.
Nýr sæstrengur til Vestmannaeyja var á langtímaáætlun Landsnets en þegar Vestmannaeyjastrengur 2 (VM2) bilaði haustið 2012 kom í ljós að framkvæmdin þoldi enga bið. Ástand VM2 var tvísýnt og afhendingaröryggi raforku til Eyja í uppnámi.
Landsnet lagði því upp með það metnaðarfulla markmið að ljúka við lagningu á nýjum sæstreng á einu ári. Með öflugu tengslaneti fyrirtækisins og aðstoð reyndra norska sérfræðinga tókst að vinna útboðsgögn með hraði og semja í framhaldinu við ABB í Svíþjóð um framleiðslu og lagningu nýs sæstrengs á milli Rimakots á Landeyjasandi og Vestmannaeyja sumarið 2013.
Lagður var 3,5 km langur jarðstrengur frá Rimakoti að fjöruborðinu á Landeyjasandi þar sem hann tengist um 13 km löngum sæstreng sem kemur á land í Gjábakkafjöru í Vestmannaeyjum. Þar tengist sæstrengurinn 1,0 km jarðstreng frá Gjábakkafjöru að tengihúsi á Skansinum í Eyjum og tengivirki.
Sæstrengurinn fylgir í megindráttum lagnaleið Vestmannaeyjastrengs 1(VM1), eins og sjá má á meðfylgjandi korti og lauk lagningu hans um miðjan júlí. Í framhaldinu var gengið frá jarðstrengjum á Landeyjasandi og í Eyjum, tengingum, prófanir framkvæmdar og strengurinn loks spennusettur formlega í október 2013.